Bjarni á bifreiðaverkstæði
Highland Trucks - 12.10.2024 kl. 16:00
Sígild tónlist á yfirleitt heima í glæstum tónleikahöllum en hljómar hún öðruvísi þegar hún er sett í annað samhengi? Á þessum tónleikum State of the Art mun Bjarni Frímann kanna þetta með því að ferja flygil inn á verkstæði Highland Trucks á Smiðjuvegi 4a og flytja spennandi efnisskrá einleiksverka fyrir píanó.
Tónlistarundrið Bjarni Frímann Bjarnason er ekki eins og fólk er flest. Hann er hljómsveitarstjóri, píanó- og víóluleikari en getur einnig framkallað hljóð sem teljast til tónlistar á næstum hvaða hljóðfæri sem er þegar skyldan kallar. Hann hefur gegnt embætti tónlistarstjóra íslensku óperunnar, sinnt stöðu staðarhljómsveitarstjóra Sinfóníuhljómsveitar Íslands og ferðast um heiminn með Björk sem hljómsveitarstjóri hennar. Nýverið var Bjarni ráðinn sem listrænn stjórnandi hjá Bit20 hljómsveitinni í Bergen.
Bjarni Frímann stundaði fiðlunám hjá Lilju Hjaltadóttur og Guðnýju Guðmundsdóttur og lauk prófi í víóluleik frá Listaháskóla Íslands. Árið 2009 bar hann sigur úr býtum í einleikarakeppni Listaháskóla Íslands og Sinfóníuhljómsveitar Íslands og lék í framhaldinu víólukonsert Bartóks með sveitinni á tónleikum. Í kjölfarið stundaði hann nám í hljómsveitarstjórn undir handleiðslu Fred Buttkewitz við Hanns Eisler-tónlistarháskólann í Berlín. Bjarni hefur komið fram víða um heim, bæði sem strengja- og hljómborðsleikari. Hann hefur stjórnað flestum hljómsveitum á Íslandi við ýmis tækifæri. Þá hefur hann samið tónlist fyrir leikhús og kvikmyndir bæði hérlendis og erlendis. Bjarni Frímann hefur um árabil komið víða fram sem píanóleikari með söngvurum og sem kammertónlistarmaður m.a. í Berlínarfílharmóníunni og Konzerthaus í Vínarborg.