Miguel Atwood-Ferguson & Elja kammersveit

Fríkirkjan - 11.10.2024 kl. 20:00


Í tónlistarlífi Los Angeles er Miguel Atwood-Ferguson lykilmaður en undanfarin 20 ár hefur hann starfað þar sem lágfiðluleikari, stjórnandi, útsetjari og margt fleira. Hann hefur fengist við sígilda tónlist, djass, hip hop, spunatónlist, r&b, sálartónlist og leikið inn á meira en 600 hljómplötur. Hann hefur starfað með listafólki á borð við Ray Charles, Ryuichi Sakamoto, Stevie Wonder, Quincy Jones, Henry Mancini, Esa- Pekka Salonen, Smokey Robinson, Wayne Shorter, Brad Mehldau, Dr. Dre, Chaka Khan, Erykah Badu, Anderson. Paak, Flying Lotus, Kamasi Washington og Thundercat svo að nokkur dæmi séu tekin.

Undanfarin misseri hefur hann stigið í auknu mæli fram sem sólólistamaður og komið eigin tónlist á framfæri en hann er afkastamikið tónskáld og eftir hann liggja strengjakvartettar, stærri verk, verk fyrir djasssveitir og fleira. Í fyrra gaf hann út sína fyrstu sólóplötu, Les Jardins Mystiques Vol. 1, sem er metnaðarfull 52 laga hljómplata sem fer um víðan völl og skartar framlögum frá mörgum færustu hljóðfæraleikurum heims. Platan hlaut 5 stjörnur í djasstímaritinu Downbeat og var valin besta plata síðasta árs af tímaritinu Guardian sem sögðu hana vera meistarastykki.

Á tónleikum Miguel á State of the Art mun hann stjórna kammersveitinni Elju og flytja sérvalda efnisskrá af verkum sínum. Auk Miguel og Elju kemur einnig kvikmyndargerðarmaðurinn Jesse Gilbert fram. Hann mun sjá um lifandi myndbandsverk á meðan á tónleikunum stendur með forriti sem hann forritaði sjálfur. Gilbert og Ferguson kynntust árið 2012 í Brasilíu þegar þeir unnu báðir með trompetleikaranum Wadada Leo Smith og hafa verið nánir vinir og samstarfsmenn allar götur síðan.