Raftónlist? Ísland? - Málþing

Ásmundarsalur - 09.10.2024 kl. 20:00

Aðgangur ókeypis


Hvað er raftónlist? Hvernig hófst hún á Íslandi og hvert er hún að fara? Miðvikudaginn 9. október kl 20:00 verður haldið málþing um raftónlist á Íslandi í Ásmundarsal. Þar mun Bjarki Sveinbjörnsson, doktor í sögu tónlistar á Íslandi, halda erindi um upphaf raftónlistar hér á landi og Thor Magnússon, rannsóknaprófessor í framtíð tónlistar, mun tala um raftónlist í tengslum við gervigreind og fleira.

Auk erindanna verður einnig flutt hið sjaldheyrða verk, DÁIK (Daginn áður en Ingólfur kom) fyrir klarinett, selló og ARP 2600 hljóðgervil eftir Þorkel Sigurbjörnsson. Þórdís Gerður leikur á selló, Magnús Jóhann Ragnarsson á ARP 2600 og Guðni Fransson á klarinett. Bjarki og Thor verða síðan þáttakendur í pallborðsumræðum með Bigga Veiru úr Gusgus og Sölku Valsdóttur úr Cyber og Reykjavíkurdætrum. Fundarstjóri er Atli Bollason.

Að málþingi loknu verður efnt til fögnuðar í tilefni af opnun Þorkelsstofu – vefsíðu sem safnar, varðveitir og miðlar höfundarverki og ævistarfi Þorkels Sigurbjörnssonar tónskálds.


Ævistarf og verkasafn Þorkels er mikilvægur hluti af tónlistarsögu og menningararfi Íslendinga en verkasafn hans telur yfir 300 tónverk, þeirra þekktasta er Heyr, himna smiður.

Raftónlist? Ísland? - Málstofa er ókeypis viðburður í boði State of the Art hátíðarinnar sem haldin er í Reykjavík 8. - 13. Október og Ásmundarsals. Hleypt inn meðan húsrúm leyfir.

Bjarki Sveinbjörnsson starfaði fyrrum sem tónmenntakennari en eftir að hann lauk doktorsnámi sínu 1998 um tónlist á Íslandi á 20. öld með áherslu á upphaf og þróun elektrónískrar tónlistar á árunum 1960-90, hefur hann mestmegnis starfað á fræðasviðinu.

Þórhallur Magnússon er rannsóknaprófessor við Háskóla Íslands og University of Sussex. Hann stýrir Intelligent Instruments verkefninu við Hugvísindasvið Háskóla Íslands. Rannsóknarefni hans eru meðal annars tónlistarflutningur, spuni, ný tækni við tjáningu tónlistar, lifandi forritun, nótnaskrift, gervigreind og tölræn sköpun. Hann hefur gefið út bækurnar Sonic Writing: Technologies of Material, Symbolic and Signal Inscription sem gefin var út hjá Bloomsbury Academic og Live Coding: A User's Manual hjá MIT Press.

Athugið að frítt er inn á þennan viðburð og öll velkomin.