Snorri Sigfús! 70! CAPUT!

Salurinn Kópavogi - 13.10.2024 kl. 16:00


State of the Art lýkur fyrstu sjóferð sinni í Salnum í Kópavogi þar sem Snorra Sigfúsi verður fagnað af vinum hans í CAPUT og öllum sem vilja gleðjast með á lokatónleikum hátíðarinnar. Snorri er frábær píanóleikari og öflugt tónskáld sem hefur skapað sér einstaka rödd með því að sameina hið kunnuglega og formfagra úr íslenska þjóðlaginu við áhrif frá módernistum 20. aldar. CAPUT og Snorri flytja þrjú verk eftir hann á tónleikunum en Snorri kemur einnig til með að leika einleiksverk á píanó.

Á þessum tímamótum lítur Snorri um öxl með því að leika frumleg barnalög eftir brautryðjendur íslenskrar samtímatónlistar, Þorkel Sigurbjörnsson og Leif Þórarinsson, sem ruddu Snorra og kynslóð hans veginn. Tónleikunum lýkur á hinum makalausa Caputkonsert nr 1. sem Snorri skrifaði fyrir sveitina fyrir rúmum tveimur áratugum. Einstakt tækifæri til þess að heyra leikið á mismunandi strengi úr hörpu Snorra. 

Snorri Sigfús Birgisson er fæddur 29. apríl 1954. Hann stundaði píanónám fyrst hjá Gunnari Sigurgeirssyni en innritaðist síðan í Tónlistarskólann í Reykjavík. Þar lærði hann á píanó hjá Hermínu S. Kristjánsson, Jóni Nordal og Árna Kristjánssyni en lagði einnig stund á tónsmíðar hjá Þorkeli Sigurbjörnssyni. Hann lauk einleikaraprófi 1974. 1974-1975 stundaði hann framhaldsnám í píanóleik hjá Barry Snyder við Eastman School of Music í Bandaríkjunum, 1975-76 tónsmíðanám í Osló hjá Finn Mortensen (enn fremur nám í raftónlist hjá Lasse Thoresen og "sonology" hjá Thoresen og Olav Anton Thommessen) og 1976-1978 lærði hann tónsmíðar hjá Ton de Leeuw í Amsterdam. Snorri hefur starfað í Reykjavík sem tónskáld, píanóleikari, tónlistarkennari og stjórnandi síðan hann kom heim frá námi árið 1980. Hann hefur samið einleiksverk, kammertónlist, raftónlist, kórtónlist og sinfónísk verk. 

Kammersveitin CAPUT hefur talsverða sérstöðu í íslensku tónlistarlífi; var formlega stofnuð árið 1988 og hefur frá upphafi sérhæft sig í flutningi samtímatónlistar. Fjölmörg íslensk tónskáld hafa skrifað verk fyrir Caput og hópurinn flutt og hljóðritað mörg meistarastykki eldri tónskálda en einnig frumsmíðar yngstu tónhöfunda. CAPUT hefur tekið virkan þátt í tónlistarlífi Norðurlandanna og Evrópu og er gjarnan talið meðal helstu flytjenda samtímatónlistar í Evrópu og hefur sem íslenskur hópur haft það að leiðarljósi að kynna íslenska tónlist á alþjóðavettvangi.