Steingrímur Gauti & Magnús Jóhann

Frjálst flæði

Stúdíó Steingríms Gauta, Krókhálsi 6 - 12.10.2024 kl. 14:00

Aðeins fyrir passahafa


Hvers konar samspil á sér stað þegar píanóleikari og listmálari koma saman? Á vinnustofu Steingríms Gauta verður þetta rannsakað laugardaginn 12. október kl 14 þegar Steingrímur Gauti, listmálari, og Magnús Jóhann, píanóleikari, hyggjast eiga samtal án orða. Magnús mun spinna á píanó í uþb klukkustund meðan Steingrímur annast listsköpun sína í beinu og óbeinu samtali við Magnús. Ætlunin með spunanum er að komast í flæðisástandið sem oft einkennir þær stundir sem eru hvað mest töfrandi í listsköpun. “Allir góðir listamenn mála það sem þeir eru” sagði Jackson Pollock, ameríski abstraktmeistarinn, líklega á þetta við um flesta listsköpun og þá einkum spuna, sem einhverjir gætu sagt eitt tærasta form sköpunar. Staðfærðar hugssjónir Pollock gætu því hljómað einhvernveginn svona: “Allir góðir listamenn skapa það sem þeir eru”

Steingrímur Gauti & Magnús Jóhann - Frjálst flæði er eini viðburður State of the Art sem eingöngu er aðgengilegur hátíðarpassahöfum. Vinnustofa Steingríms Gauta er á þriðju hæð á Krókhálsi 6. 

Steingrímur Gauti Ingólfsson (f. 1986) lauk BA-gráðu í myndlist frá Listaháskóla Íslands 2015 og hefur verið virkur á listasviðinu síðan. Hann hefur tekið þátt í samsýningum á Íslandi og erlendis og haldið nokkrar einkasýningar, þar á meðal sýninguna „Chop Wood, Carry Water,“ í Marguo-galleríinu í París. Verk Gauta má finna í opinberum söfnum og í einkaeigu í Evrópu, Bandaríkjunum og Asíu. Steingrímur Gauti býr og starfar í Reykjavík. Steingrímur Gauti nálgast málverkið af alúð og léttleika, með því að aðskilja sjálfið og fyrirframgefnar hugmyndir frá daglegu sköpunarferli sínu. Verk hans leika með grunnspurningar um myndlist og fagurfræði, eru í senn kraftmikil og lítillát en fjalla í raun ekki um annað en sig sjálf og sjónræn áhrif þeirra á áhorfandann. Ónákvæmni, endurtekning og höfnun gagnrýnnar hugsunar einkenna vinnubrögð hans og útkoman ber þess jafnan merki, þar sem verkin dansa á línu þess ljóðræna og barnslega.

Píanóleikarinn Magnús Jóhann Ragnarsson (f. 1996) hefur frá árinu 2015 hefur verið mjög virkur sem tónlistarflytjandi, tónskáld og upptökustjóri en hann hefur leikið inn á hundruði hljóðrita og kemur fram á fjölmörgum tónleikum á ári hverju. Moses Hightower, Bríet, Ingibjörg Turchi, Aron Can og Bubbi Morthens eru dæmi um samstarfsaðila hans en sjálfur hefur Magnús gefið út fjórar sólóplötur og eina stuttskífu. Auk þeirra gaf hann út dúóplöturnar Án tillits 2021, með Skúla Sverrissyni og Tíu íslensk sönglög 2022, með GDRN. Magnús var valinn tónlistarflytjandi ársins í opnum flokki á Íslensku Tónlistarverðlaununum 2023.

Athugið að viðburðurinn er aðeins fyrir passahafa.